Skilmálar

Petersen appið er vildarlausn sem P.Petersen ehf. býður í formi snjallforrits (apps) á Google Play og í Apple App Store.

1. Almennt

Með því að skrá þig sem notanda í Petersen appið staðfestir þú að þú hafir kynnt þér, skilið og samþykkt neðangreinda skilmála Petersen ehf., kt. 670313-0260, Ingólfsstræti 2a, 101 Reykjavík, eins og þeir eru á hverjum tíma, og fela þeir í sér heildarsamning milli okkar og þín sem notanda, um notkun Petersen appsins (einnig vísað til sem “samningsins”). Í skilmálum þessum er einnig vísað til Petersen appsins sem “lausnarinnar” og/eða “appsins”. Notandi skal kynna sér vandlega skilmála þessa áður en stofnaður er aðgangur í appinu og er samþykki skilmálanna forsenda þess að notandi megi og geti notað lausnina. 

Óski notandi eftir hliðræðu afriti af skilmálum þessum skal notandi koma slíkri beiðni á framfæri við Petersen svítuna. Notandi er jafnframt hvattur til að vista afrit af þeim skilmálum sem hann samþykkir áður en hann byrjar að nota appið.

Notkun á Appinu er notendum að kostnaðarlausu en hægt er að gerast meðlimur í vinaklúbb Petersen fyrir 4.990 kr. á ári og því fylgja ýmis fríðindi.

2. Notkun appsins

2.1 Notkunarmöguleikar

Með appinu getur notandi gerst meðlimur í vinaklúbbi Petersen og fengið vildarkort inn í appið. Vildarkort Petersen er hefðbundið punktakort þar sem inneign safnast við notkun og hægt er að innleysa punkta fyrir vöru. Með vildarkorti Petersen safnar notandi punktum í hvert sinn sem kortið er notað. Punktana má svo nota síðar sem greiðslu fyrir mat eða drykki í Petersen svítunni. Fyrir hverjar 1000 kr. fær notandi 100 punkta og hver punktur jafngildir einni krónu. Ekki er hægt að skipta punktum yfir í reiðufé.

Ef sótt er um vildarkort inni í appinu stofnast notandi í kassakerfi Petersen. Til að fá inneign við kaup þarf notandi að sýna starfsmanni Petersen rafrænt vildarkort í appinu. Starfsmaður Petersen svítunnar skráir því næst barkóða sem er sýnilegur í Appinu en við það skrást viðskiptin á viðkomandi vildarkort og punktastaða þess verður uppfærð. Punktastaða vildarkorts er ávallt sýnileg í appinu. Ásamt því að tengja vildarkort við appið getur notandi einnig gert eftirfarandi í lausninni:

  • Skoðað lista yfir viðburði

  • Skoðað upplýsingar um tilboð og vörur sem eru í boði í Petersen svítunni

  • Fengið boð um sérstök tilboð eða á sérstaka viðburði fyrir meðlimi.

Upplýsingar um vildarkort í appinu eru aðgengilegar notanda í appinu meðan hann hefur virkan notendaaðgang.

2.2 Nýskráning

Notandi gefur upp kennitölu og kreditkortanúmer þegar sótt er um að gerast meðlimur í vildarklúbbi Petersen. Vildarkort Petersen svítunnar eru gefin út á kennitölu og eru notendur stofnaðir í kassakerfi Petersen svítunnar með þeirra kennitölum sem auðkenni.

2.3 Persónuvernd

Við skráningu í lausnina og notkun hennar verða til upplýsingar sem Petersen svítan safnar og tengist notanda, þar á meðal punktastaða á vildarkorti notanda, sem og upplýsingar sem notandi skráir í lausnina, sbr. gr. 2.2. Þessar upplýsingar teljast til persónugreinanlegra upplýsinga í skilningi laga nr.90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga (“persónuverndarlög”).

Í persónuverndarstefnu Petersen svítunnar, sem aðgengileg er í appinu, er að finna nánari upplýsingar um hvernig unnið er með þær upplýsingar sem safnast við skráningu í launsina og notkun hennar. Persónuverndarstefna þessi skal teljast hluti af samningi þessum og skal notandi því kynna sér hana vel áður en hann hefur notkun á lausninni.

Notandi ábyrgist að upplýsingar sem skráðar eru í appið séu alltaf réttar og varði hann sjálfan. Það er því alfarið á ábyrgð notanda að uppfæra upplýsingar um sig í appinu þegar og ef þörf krefur.

3. Markaðsskilaboð og önnur skilaboð til notenda

Með vildarkortinu kann notandi að fá send tilboð og önnur markaðsskilaboð frá Petersen svítunni í gegnum appið. Petersen svítan áskilur sér rétt til að senda notanda skilaboð sem tengjast notkun eða virkni lausnarinnar, svo sem með því að senda tölvupóst, SMS eða skilaboð í gegnum appið.

Notandi getur afskráð sig af póstlista og lista fyrir SMS sendingar með því að senda tölvupóst á Petersen svítuna í gegnum netfangið gamlabio@gamlabio.is.

4. Ábyrgð

Öll notkun á appinu er á ábyrgð notanda. Petersen svítan ber enga ábyrgð verði notandi fyrir tjóni vegna notkunar á appinu, s.s. ef þriðji aðili kemst yfir farsíma notenda og/eða aðgang hans að appinu.

5. Höfunda- og hugverkaréttur

Samningur þessi hefur ekki í för með sér neins konar yfirfærslu á höfunda- eða hugverkarétti frá Petersen svítunni eða þess aðila sem hefur þróað lausnina til notenda. Það sama á við um efni það sem finna má í lausninni og kann að vera háð hugverkarétti Petersen svítunnar eða þriðja aðila.

Notanda er einungis heimilt að nýta sér upplýsingar eða efni í appinu til persónulegra nota í samræmi við skilmála þessa.

Dreifing, fjölföldun eða endurútgáfa af hugverkavörðu efni Petersen svítunnar er með öllu óheimil.

6. Lok samnings

Við áskiljum okkur rétt til að hætta að bjóða lausnina hvenær sem er án sérstakra skýringa. Komi til þess verður notendum tilkynnt um það með hæfilegum fyrirvara.

Notandi getur hvenær sem er hætt að nota lausnina og eytt henni úr farsíma sínum eða öðru snjalltæki. Petersen svítan getur hvenær sem er lokað aðgangi notanda að lausninni, s.s. í þeim tilvikum er notandi hefur gerst brotlegur við skilmála þessa.

7. Breyting

Við áskiljum okkur rétt til að gera tæknilegar breytingar eða uppfærslur á appinu þegar þörf krefur, þar á meðal til að bæta lausnina. Við áskiljum okkur rétt til að uppfæra skilmála þessa. Nýjasta útgáfa skilmála þessa er aðgengileg í gegnum appið.

8. Lögsaga og varnarþing

Um skilmála þessa og appið gilda íslensk lög. Rísi ágreiningur milli notanda og Petersen svítunnar vegna lausnarinnar, sem ekki reynist unnt að leysa með farsælum hætti milli aðila, skal reka málið fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.

9. Gildistími

Skilmálar þessir eru gefnir út af Petersen svítunni og gilda frá 16.04.2021 og til þess tíma er nýir skilmálar taka gildi.


Persónuverndarstefna

1. Vinnsla

Í tengslum við umsókn og notkun á vildarkorti Petersen (“vildarkortið”) er unnið með persónugreinanlegar upplýsingar notanda. Í persónuverndarstefnu þessari er nánar kveðið á um þá vinnslu sem á sér stað í þeim tilvikum er vildarkortið er tengt smáforriti Petersen (“appið”).

Öll vinnsla á persónuupplýsingum, þ.m.t. öflun, skráning, vistun og meðferð þeirra, lýtur lögum nr. 90/2018 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og öðrum reglum sem settar hafa verið á grundvelli persónuverndarlaga (“persónuverndarlög”).

P. Petersen ehf., kt. 670313-0260, Ingólfsstræti 2a, 101 Reykjavík, (hér eftir “Petersen” eða “við”), telst ábyrgðaraðili í skilningi persónuverndarlaga í tengslum við þá vinnslu sem á sér stað með notkun vildarkortsins.

P. Petersen ehf. telst vinnsluaðili í tengslum við þá vinnslu persónuupplýsinga sem tengjast vildarkortinu.

2. Persónuupplýsingar sem safnað er

Þegar notandi setur upp appið þarf ekki að láta af hendi neinar persónuupplýsingar, hægt er að nota appið til að skoða upplýsingar um vörur, tilboð og viðburði án þess að vera skráður notandi. Ef notandi kýs að gerast meðlimur í vinaklúbbi Petersen þá þarf hann að gefa upp kennitölu sína og kreditkortanúmer. Notandi ber ábyrgð á réttleika þeirra upplýsinga sem hann skráir í appið hverju sinni.

Við notkun á vildarkortinu safnast jafnframt upplýsingar um notkunina og þær vörur sem keyptar eru.

Upplýsingar um notkun á vildarkorti notanda eru geymdar í kassakerfi Petersen.

3. Tilgangur vinnslu

Við öflum, skráum og vistum ofangreindar upplýsingar í þeim tilgangi að geta veitt notendum vildarkortsins fríðindi, afslætti og/eða tilboð sem tengjast notkun á kortinu. Sú vinnsla byggir því á samningi aðila, eða beiðni um að gera samninga.

Þá munum við nota upplýsingarnar til að geta sett okkur í samband við notanda í viðskiptalegum tilgangi, þ.á.m. í þeim tilgangi að tilkynna notanda um breytingar á lausninni, svo sem á virkni hennar eða stillingum. Einnig munum við senda markaðsskilaboð til notenda.

Við munum ekki nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi án þess að afla sérstaklega samþykkis notanda fyrir slíkri vinnslu. Í slíkum tilvikum hafa notendur ávallt heimild til að afturkalla samþykki sitt.

4. Viðtakendur upplýsinga

Þær upplýsingar sem safnast við notkun vildarkortsins í lausninni eru vistaðar hjá P. Petersen ehf. sem sem er vinnsluaðilinn í skilningi persónuverndarlaga. 

Vinnsla P. Petersen ehf. á upplýsingunum kann jafnframt að felast í því að tryggja virkni lausnarinnar og öryggi upplýsinganna og sjá um að eyða upplýsingum á grundvelli fyrirmæla okkar þar um.

Þá kunnum við eftir atvikum að þurfa veita notendum stoðþjónustu eða bilanagreiningu, sé um það samið, og í slíkum tilvikum sér P. Petersen ehf. um slíka aðstoð.

Við munum ekki nota upplýsingarnar í öðrum tilgangi eða afhenda þær þriðja aðila, að lögreglu frátalinni, nema á grundvelli lagaheimildar, stjórnvaldsfyrirmæla, dómsúrskurðar eða samþykkis notanda. Við áskiljum okkur þó rétt til að afhenda þriðja aðila ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun lausnarinnar, sbr. gr. 9 neðar.

5. Varðveislutími

Allar upplýsingar eru vistaðar á meðan notandi telst enn vera notandi appsins.

Í kjölfar uppsagnar/riftunar á samningi notanda og okkar er notkunarsaga varðveitt í 90 daga frá lokun notandaaðgangs notanda, einkum í þeim tilgangi að tryggja réttleika og rekjanleika gagna, nema lög, stjórnvaldsfyrirmæli eða dómstólar krefist annars. Notandi getur óskað eftir eyðingu upplýsinga fyrir það tímamark með skriflegri beiðni til okkar.

6. Nákvæmni og áreiðanleiki upplýsinga

Við munum gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að persónuupplýsingar sem Petersen safnar við notkun notanda á lausninni séu áreiðanlegar og uppfærðar þegar þörf krefur. Séu persónuupplýsingar óáreiðanlegar munum við, með hliðsjón af tilgangi vinnslunnar, gera viðeigandi ráðstafanir til þess að þær verði leiðréttar eða þeim eytt.

7. Öryggi upplýsinga

Við munum gera viðeigandi tæknilegar og skipulagslegar ráðstafanir til að tryggja öryggi persónuupplýsinga, m.a. með það að markmiði að koma í veg fyrir mannleg mistök, þjófnað, svik eða aðra misnotkun á upplýsingum. Við munum takmarka aðgang að upplýsingum við þá starfsmenn sem nauðsynlega þurfa slíkan aðgang til að ná fram tilgangi vinnslunnar.

Starfsmenn okkar eru upplýstir um skyldu þeirra til að viðhalda trúnaði og öryggi persónuupplýsinga.

8. Réttindi notanda

Notandi hefur rétt til að andmæla söfnun okkar á persónuupplýsingum telji hann að slík söfnun sé ekki í samræmi við tilgang hennar, að meðalhófs sé ekki gætt eða ef hann telur að sama árangri sé hægt að ná með mildari aðferðum. Þannig getur notandi t.a.m. andmælt því að fá send markaðsskilaboð sem byggja á viðskiptasögu notanda.

Þá getur notandi óskað eftir því að fá upplýsingar um þá vinnslu sem á sér stað hjá okkur um hann, enda standi hagsmunir annarra því ekki í vegi. Sé aðgangur veittur skal hann veittur eins fljótt og auðið er og almennt eigi síðar en innan eins mánaðr frá móttöku slíkrar beiðni.

Notandi kann jafnframt að eiga rétt til að krefjast þess að röngum, vilalndi eða ófullkomnum persónuupplýsingum um sig verði leiðréttar og/eða persónuupplýsingum notanda verði eytt.

Undir ákveðnum kringumstæðum kann notandi jafnframt að eiga rétt á því aðfá þær persónuupplýsingar sem við vinnum sendar á tölvulesanlegu sniði eða að við sendum þær upplýsingar til annars ábyrgðaraðila.

9. Ópersónugreinanlegar upplýsingar

Við áskiljum okkur rétt til að vinna með og greina ópersónugreinanlegar upplýsingar um notkun notanda á vildarkortinu í appinu, þ.á.m. til áframhaldandi vöruþróunar og/eða til að bæta virkni appsins. Skal okkur vera heimilt að miðla slíkum ópersónugreinanlegum upplýsingum um lausnina/appið, t.d. tölfræðilegum samantektum, til þriðja aðila.

10. Kvartanir og beiðnir

Kvörtunum eða beiðnum frá notendum appsins vegna vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við lausnina (appið), t.d. í tengslum við gr. 8. í stefnu þessari, skal koma á framfæri við okkur með skriflegum hætti með því að senda tölvupóst á gamlabio@gamlabio.is.

Það skal jafnframt tekið fram að hafi notendur athugasemdir við vinnslu okkar á persónuupplýsingum þeirra hafa þeir rétt til þess að kvarta til Persónuverndar (www.personuvernd.is).